Hamar SH 224 kemur til landsins eftir miklar endurbætur í Gdansk í Póllandi. Báturinn er annar tveggja báta Kristins J. Friðþjófssonar ehf. á Rifi. Það merkilega við skveringuna er að hér er um að ræða 53 ára gamalt skip sem smíðað var í Shelby í Englandi en óvanalegt er að farið sé út í miklar endurbætur á svo gömlum skipum.
Halldór Kristinsson, framkvæmdastjóri Kristins J. Friðþjófssonar, segir að menn hafi vitað hvað þeir hefðu í höndunum og af þeim sökum hafi verið ákveðið að ráðast í þessar endurbætur.
Skipið var sandblásið alveg frá kili og upp í mastur, skipt var um lestargólf, öll lestin tekin í gegn og einangruð og sett var í hann nýtt stýri. Þá voru öll togspil tekinn úr skipinu og það betrumbætt til línuveiða auk annars. Var verkið unnið af skipasmíðastöðinni Alkor í Gdansk.
Auk Hamars gerir Kristinn J. Friðþjófsson ehf. út Stakkhamar sem hefur verið við veiðar úti af Norðurlandi og landar á Siglufirði. Í eigu sömu aðila er síðan fiskvinnslan Sjávariðjan þar sem eru 23 starfsmenn. Halldór segir að segir að Kristinn J. Friðþjófsson ehf. byggi á gömlum grunni og menn hafi varað sig á því að skuldsetja fyrirtækið ekki um of. Að því leytinu til sé fyrirtækið ágætlega statt en eins og önnur lítil sjávarútvegsfyrirtæki valdi hátt gengi krónunnar, lágt afurðaverð og veiðigjöldin fyrirtækinu erfiðleikum.
Um 2.000 tonn á ári
Fyrirtækið gerði áður einnig út Sæhamar og Litla-Hamar en seldi þá og færði aflaheimildirnar yfir á Stakkhamar. Hann veiðir um 1.000 tonn á ári og Hamar er með jafn miklar aflaheimildir. Allur aflinn er unninn í Sjávariðjunni. 60% af aflanum fer í ferskan fisk en fiskvinnslan var endurnýjuð fyrir tveimur árum og er meðal annars búin vatnskurðarvél.
„Veiðarnar hafa gengið vel undanfarið á Stakkhamri. Hann fór í skveringu fyrir norðan um verslunarmannahelgina og fór síðan beint á veiðar fyrir norðan. Hann hefur séð vinnslunni fyrir þorski meðan Hamar er úti í Póllandi. Annars hefur Stakkhamar aðallega verið í löngu á haustin. Stefnan er að hann komi hingað vestur á næstunni og verði við veiðar hér,“ segir Halldór.
Halldór er ekki bjartsýnn fyrir hönd smærri útgerðarfyrirtækja. „Ef afurðarverð og gengi krónunnar fer ekki að lagast og ekkert verður að gert hvað varðar veiðigjöldin á næstunni þá er einsýnt að innan tveggja ára fækki einstaklingsútgerðum verulega. Það blasir bara við. Þegar menn fara að gera upp eftir fyrstu mánuðinna í fiskveiðiárinu sjá þeir að það er lítil ástæða til annars en að pakka saman. En við höfum gaman að þessu og meðan við getum ráðið okkur sjálfir þá erum við ekki að fara að hætta,“ segir Halldór.