Útgerðarfyrirtækið Valþjófur ehf. hefur keypt bátinn Halldór Sigurðsson ÍS með aflaheimildum, að því er fram kemur á bb.is .  Valþjófur er í eigu Gunnars Torfasonar og Ólafs Jens Daðasonar. Báturinn er keyptur af útgerðinni Kili ehf. sem er í eigu feðganna Konráðs Eggertssonar og Guðmundar Konráðssonar.

Gunnar Torfason segir að auk bátsins og fylgi með í kaupunum 5 prósenta aflaheimildir í innfjarðarrækju í Ísafjarðardjúpi, 100 prósenta hlutur í rækjuveiðum í norðanverðum Breiðafirði og hrefnuveiðileyfi. Valþjófur gerir út bátinn Eið ÍS á rækju í Djúpinu. „Eftir kaupin á þessum aflaheimildum erum við með 23 prósent af rækjunni í Djúpinu,“ segir Gunnar í samtali við bb.is

Báturinn verður gerður út áfram og segir Gunnar hann vera í toppstandi og vel útbúinn. „Báturinn er Konráð til mikils sóma. Hann er eins og nýr þrátt fyrir að vera 40 ára gamall og vel útbúinn til rækjuveiða, netaveiða og áframeldisveiða á þorski. Halldór Sigurðsson verður áfram gulur og gerður út frá Ísafirði.“