Halldór Ármannsson formaður hefur tilkynnt stjórn Landssambands smábátaeigenda að hann geti ekki kost á sér til endurkjörs. Halldór sem lýkur sínu þriðja ári sem formaður á næsta aðalfundi LS segist á heimasíðu samtakanna líta á það sem mikinn heiður að hafa starfað fyrir smábátaeigendur á efsta þrepi. Hann hefði í formannstíð sinni kynnst fjölmörgum vinklum í starfinu sem hann hefði ekki órað fyrir að væru afgreiddir á þann hátt sem gert væri.  En hagsmunabarátta væri ólíkindatól enda náskyld pólitíkinni.

Halldór nefndi sérstaklega fundi hagsmunaaðila hjá Hafrannsóknastofnun þar sem stofnunin kynnir tillögur til stjórnvalda um hámarksafla. Þar nikkaði hver hagsmunaaðilinn á fætur öðrum til samþykkis. Steininn hefði þó tekið úr í júní sl. Þá hefði ekki dugað að mikill meirihluti umbjóðenda þeirra væri þeirra skoðunar að sjórinn væri fullur af þorski og því ástæða til auka verulega við þorskaflann.  Að gera ekki athugasemdir við 5000 tonna aukningu væri óskiljanlegt.  LS væri utan þessara meðvirkni og markaði sína sérstöðu með ábyrgum og vel ígrunduðum tillögum.

Í starfinu hafi líka komið honum á óvart vinnubrögð atvinnuveganefndar Alþingis.  Pukrast væri með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þar til samið hefði verið um þinglok. Þá væri með klukkustanda fyrirvara kallað í hagsmunaaðila og þeim kynnt hvað nefndin hefði í hyggju.  Í örafgreiðslu þingsins væri svo gumað af víðtæku samráði.

Halldór ætlar nú að hverfa aftur til útgerðarinnar sem hann á ásamt föður sínum, en þeir feðgar gera út tvo báta, Stellu og Guðrúnu Petrínu.