Vegna heimsfaraldursins langdregna þurfti sem kunnugt er að fresta Íslensku sjávarútvegssýningunni, IceFish. Til stóð að halda hana í september síðastliðnum, og hafði þá verið frestað nokkrum sinnum áður, en nú er stefnt er að því að halda hana í júní á næsta ári.

Ekki verður haustið samt alveg viðburðalaust því nú í næstu viku verður efnt til sérstakrar netútgáfu sýningarinnar, IceFish Connect, dagana 16. til 18. nóvember og er það í fyrsta sinn sem þetta er reynt.

„Þetta er ekki sami viðburðurinn og sýningin sem gerði fólki kleift að hittast augliti til auglitis, en í grundvallaratriðum er hann þó eins og allir aðrir viðburðir í viðskiptalífinu," segir Marianne Rasmussen-Coulling, viðburðastjóri hjá Mercator Media.

Ákveðið hefur verið að þetta fyrirkomulag verði framvegis haft samhliða sýningunni sjálfri. Vefútsending verður því haldin í tengslum við IceFish sýninguna sem haldin verður 8. til 10. júní næsta sumar.

Fjölbreytt dagskrá

Á IceFish Connect verða kynningar nokkurra helstu fyrirtækja tengdum íslenskum sjávarútvegi. Nýsköpun verða gerð sérstök skil og málstofa haldin um bláa hagkerfið auk þess sem Félag kvenna í sjávarútvegi verður með kynningu.

Þá verður efnt til ráðstefnunnar Fish Waste for Profit þar sem fjallað verður um fullnýtingu aukaafurða sjávarafla. Eins og áður verður Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, fundarstjóri.

Hún sagði að IceFish Connect ætti ekki að koma í staðinn fyrir sýninguna sjálfa. Hins vegar hafi ekki komið til greina að gera ekki neitt.

„Eftir meira en 35 ár finnum við raunverulega til ábyrgðar gagnvart sýnendum okkar og gestum,“ segir hún. „Auk þess teljum við að í framtíðinni muni viðburðir á vefnum haldast í hendur við sýninguna í raunheimum."