Nýr leiðangur þar sem leitað verður að loðnu er að fara í gang. Samkvæmt heimildum Fiskifrétta leggja uppsjávarskipin Polar Ammassak og Aðalsteinn upp í leiðangurinn frá Austfjörðum í kvöld.
Leitarsvæðið mun vera fyrir norðan og vestan land og er leitað í kjölfar þess að stystu loðnuvertíð sögunnar hér við land virðist vera lokið. Að venju eru fulltrúar Hafrannsóknastofnunar um borð í skipinum.
Eins og kunnugt er gaf Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf upp á 8.589 tonn í lögsögunni og var þeirri ráðgjöf fylgt. Um helmingur þeirra aflaheimilda kom í hlut íslenskra útgerða.
Í tilkynningu vegna ráðgjafar sinnar sagði Hafrannsóknastofnun rannsóknaskipið Árna Friðriksson, ásamt uppsjávarveiðiskipunum Polar Ammassak og Heimaey hafa verið við loðnumælingar norður af Íslandi síðan 8. febrúar. Ekkert hafi verið að sjá af fullorðinni loðnu á yfirferðasvæði veiðiskipanna tveggja á meðan tæp 98.2 þúsund tonn hafi mælst á Árna Friðrikssyni norðvestan við land.

„Í janúar mældust um 180 þúsund tonn austur af landinu og saman með febrúarmælingunni vestan til er heildarmæling vetrarins um 278.20 þúsund tonn. Til samanburðar þá var stærð veiðistofnsins metinn 318 þúsund tonn síðast liðið haust. Ráðgjöf hafrannsóknastofnunar byggir á samþykktri aflareglu stjórnvalda þar sem haustmæling vegur 1/3 á móti 2/3 af niðurstöðu vetrarmælinga að teknu tilliti til óvissu í matinu og til metins afráns,“ sagði í tilkynningu Hafró í síðustu viku.