Tvö af sjö útgerðarfélögum ætla að halda bótakröfu sinni á hendur ríkinu til streitu. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst 982 milljóna og Huginn 839 milljóna, auk vaxta vaxta frá útgáfudegi reglugerða um veiðiheimildir í makríl auk dráttarvaxta frá þingfestingu málanna.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, staðfesti þetta í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun og Kjarninn greindi frá .
Þá hafði Páll Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins, sagt frá því fyrir helgi að hann telji rétt að halda kröfunum til streitu. Stundin greindi frá.
Kröfur sjö útgerðarfélaga um skaðabætur úr ríkissjóði upp á tíu milljarða vöktu hörð viðbrögð ráðamanna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði í Facebook-færslu boðað lagasetningu um að makrílútgerðirnar beri sjálfar kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er.
Þau lög muni "taka af öll tvímæli um að makrilútgerðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er."
Fimm af þessum fyrirtækjum lýstu því yfir í síðustu viku að þau væru fallin frá málsókn.
Bæði Bjarni og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gagnrýndu kröfurnar harðlega á þingi í síðustu viku og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sagði í Fréttablaðinu að þetta framferði sé taktlaust og fyrirtækin ættu að draga kröfur sínar til baka.