Það eru fleiri en Íslendingar sem eru sólgnir í kjötið af hrefnunum sem veiðast hér við land. Úlfar Eysteinsson matreiðslumaður segir það færast í vöxt að útlendingar komi til sín á veitingastaðinn Þrjá Frakka til að prófa hrefnukjöt.

,,Flestir fara varlega í það til að byrja með en eru svo mjög hissa á því hvað steikin er góð. Ameríkanar skera sig þó úr. Margir þeirra trúa ekki sínum eigin augum þegar steikin er lögð á borðið fyrir framan þá og þeir sjá að hún er rauð. Þeir halda að kjötið eigi að vera hvítt eins og Moby Dick eða þá að hrefnan sé stór fiskur en ekki spendýr.”

Úlfar var með í för þegar Fiskifréttir brugðu sér í róður með hrefnuveiðibátnum Hrafnreyði KÓ um síðustu helgi. Nánar segir frá veiðiferðinni í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.