Ríkisstjórinn í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur undirritað lög sem banna sölu og vörslu á hákarlauggum. Með því vill Kalifornía taka forustu í að draga úr eftirspurn eftir hákarlauggum og stuðla að verndun hákarla sem sagðir eru víða í útrýmingarhættu. Þeim sem eiga birgðir af hákarlauggum er gefinn frestur fram á mitt ár 2013 til þess að koma þeim í lóg.
Stórmarkaðskeðja í Singapore, Cold Storage Supermarket, hefur fetað sömu braut og tilkynnt að hún muni hætta að selja hákarlaugga og aðrar hákarlaafurðir. Bæði í Kaliforníu og Singapore eru stór samfélög fólks af kínverskum uppruna en hákarlauggasúpa er vinsæll réttur í kínverskri matargerð og gjarnan framreidd í brúðkaupum og stórveislum.
Með aukinni velmegun Kínverja bæði í heimalandinu og erlendis hefur eftirspurn eftir hákarlauggasúpu aukist. Á veitingastöðum í Bandaríkjunum getur súpudiskurinn kostað allt að 100 dollara eða jafngildi nær 12.000 íslenskra króna.
Vefurinn FISHupdate.com greinir frá þessu.