Rekstur Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum skilaði 5,6 milljóna evra hagnaði, jafnvirði um 900 milljóna króna, á árinu 2009. Skuldir VSV nema 61 milljón evra og hefur fyrirtækið ekki skuldað minna í evrum frá árinu 2003. Tekjur fyrirtækisins voru 20 milljónum evra meiri árið 2009 en 2003.

Skuldir fyrirtækisins tvöfölduðust hins vegar í íslenskum krónum við fall bankanna 2008 „og á slíka stærð er horft í umræðunni en hún segir augljóslega hverfandi sögu um raunverulega stöðu VSV," segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en aðalfundur þess er nýlega afstaðinn.

VSV nýtti sér lagaheimild til að færa reikninga sína í evrum frá og með árinu 2008. Aðalfundur samþykkti nú að skrá hlutafé félagsins í evrum og að í kjölfarið yrði greiddur út 18% arður í evrum. Eigið fé VSV var tæplega 30 milljónir evra í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfall tæp 33%. Ef sömu reikningar félagsins hefðu verið færðir í íslenskum krónum væri eigið fé þess neikvætt um 872 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 8,7%.

Í tilkynningunni segir einnig: „Nær allar tekjur VSV eru í erlendum myntum og skuldir sömuleiðis. Staða og afkoma VSV er því skólabókardæmi sem álitsgjafar og skoðanahönnuðir í opinberri umræðu um skuldastöðu sjávarútvegsins geta velt vöngum yfir og vonandi dregið nokkurn lærdóm af, kæri þeir sig um."