Tekjur Ísfélagsins drógust saman um tæplega 12% milli ára og námu 23,6 milljörðum króna í fyrra. Félagið segir samdráttinn skýrist að mestu leyti vegna aflabrests í loðnu á síðastliðnum vetri og lélegrar makrílveiði í sumar.
Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði um 43,6% frá fyrra ári og nam 4,5 milljörðum króna. Hagnaður Ísfélagsins eftir skatta dróst saman um 58,3% milli ára og nam 2,2 milljörðum króna.
Heildareignir Ísfélagsins námu 107,5 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 76 milljarðar. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 2,1 milljarðar króna vegna rekstrarársins 2024.
Mega ekki við frekari kostnaðarhækkunum
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, segir ljóst sé að afkoma greinarinnar megi ekki við frekari kostnaðarhækkunum, eins og þá sem stjórnvöld boði með hækkun á veiðigjöldum, þegar tekið er tillit til nauðsynlegra fjárfestinga og eðlilegrar afkomu greinarinnar.
„Engar tilraunir hafa verið gerðar til að skoða áhrif þessara skattahækkana á atvinnugreinina og samkeppnishæfni hennar. Hærri skattar á fyrirtæki minnka möguleika þeirra á að fjárfesta í betri rekstri og draga úr getu fyrirtækja til að gera betur. Þarna eru því áform að slátra mjólkurkúnni,“ segir Stefán í nýbirtri uppgjörstilkynningu Ísfélagsins.
Hann bendir einnig á að fyrir liggi að sjávarútvegsráðherra ætli að fjölga strandveiðidögum upp í 48.
„Því hefur verð heitið að það verði gert án þess að skerða heimildir annarra útgerðaraðila. Gangi þessi áform eftir mun þorskaflinn innan fárra ára aukast langt fram úr veiðiráðgjöfinni og það er ekki farsælt ef markmiðum um sjálfbærar veiðar er varpað fyrir róða.“