Hagnaður HB Granda nam 10,6 milljónum evra, jafnvirði rúmra 1,6 milljarða króna, á fyrstu sex mánuðum ársins, að því er fram kemur í frétt á vef Viðskiptablaðsins . Þetta er 5,6 milljónum evrum minna en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur 34,5% á milli ára. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 4,9 milljónum evra borið saman við 6 milljónir á sama tíma í fyrra.
Fram kemur í uppgjöri HB Granda að rekstrartekjur fyrirtækisins námu 87,3 milljónum evra á fyrri hluta ársins, þar af 45,3 milljónir á öðrum ársfjórðungi. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og gjöld nam 18,7 milljónum evra á fyrri hluta árs og 9,5 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaðurinn 24,1 milljón evra á fyrri hluta síðasta árs og 7,5 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi.