„Það er sárt að þurfa að segja það, en ég held að Hafrannsóknastofnun hafi varla litið aumari daga frá því að ég byrjaði þar,“ segir Einar Jónsson fiskifræðingur í viðtali í jólablaði Fiskifrétta, en hann lætur nú af störfum eftir 40 ára starfsferil.
Einar minnir á að þegar hann hóf störf hafi fjögur hafrannsóknaskip verði í rekstri en nú séu þau aðeins tvö og auk þess bundin við bryggju mánuðum saman vegna ónógra fjárveitinga. Svo langt hafi þetta gengið að við hefði blasað að leggja þyrfti niður haustrallið tvö síðastliðin haust.
„Með beiskjubragð í munni var samþykkt á Hafró að halda haustrallinu áfram með því að taka fisk utan við kvóta og borga togaraútgerð með honum fyrir vikið. Ég segi beiskt bragð, því Hafrannsóknastofnun barðist í áratugi fyrir því að stjórnvöld færu að tillögum hennar, sem nú hefur að miklu leyti tekist með samþykktum aflareglum,“ segir Einar.
Hann bætir við að rétt eins og til að afglæpavæða gjörninginn sé bannað að úthluta þessum kvóta til Hafrannsóknastofnunar og henni meinað að selja hann og gera að peningum svo hún geti sjálf framkvæmt rallið með eigin skipum.
Sjá nánar viðtalið við Einar í jólablaði Fiskifrétta en þar kemur hann víða við.