Undanfarið hafa fréttir af makrílgöngum borist víða að í kringum landið og hafa landsmenn verið áhugasamir um þessa fiskitegund, sem nú virðist í óvenjumiklu magni við Ísland.
Til þess að fá sem gleggsta mynd af þessari þróun mála, óskar Hafrannsóknastofnunin eftir því við sjómenn og aðra landsmenn sem verða varir við makríl, að þeir geri stofnuninni viðvart, t.d. með því að senda inn upplýsingar á vefsíðu Hafrannsóknastofnunarinnar www.hafro.is (smella á tengil neðst á forsíðu - "Sendu okkur línu") eða með því að hafa samband við skiptiborð stofnunarinnar í síma 5752000, en vaktahafandi fiskifræðingur í veiðieftirliti annast móttöku upplýsinga um makrílgengd nú í sumar.
Fyrirhugaður er sérstakur 25 daga leiðangur á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni nú í júlí og ágúst, sem sérstaklega er ætlað að meta útbreiðslu, göngur og fæðuvistfræði makríls við landið. Þessar upplýsingar ásamt gögnum sem berast frá sjómönnum og almenningi munu m.a. nýtast við alþjóðlegar samstarfsrannsóknir á líffræði og veiðiþoli makríls á norðaustanverðu Atlantshafi og vera framlag Íslands til skynsamlegrar stjórnunar veiða úr stofninum, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnuninni.