Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfilegur hámarksafli á loðnuvertíðinni 2014/2015 verði 580 þúsund tonn, að meðtöldum þeim afla sem búið var að veiða þegar mælingar fóru fram. Er það 320 þúsund tonna viðbót við útgefið aflamark í október 2014.

Hafrannsóknastofnun hefur verið við loðnumælingar frá 5. janúar síðastliðnum og lauk leiðangrinum í dag er rannsóknaskipið Árni Friðriksson kom til heimahafnar. Auk Árna Friðrikssonar tók Birtingur NK þátt í rannsóknunum dagana 16.-22. janúar.

Mælingar hófust út af Vestfjörðum og náðu þaðan allt austur fyrir land. Í upphafi leiðangursins var veður mjög gott og aðstæður til mælinga góðar, en þá gerði óveður og varð rannsóknaskipið að leita vars í 5 daga. Því varð að endurtaka mælingar á því svæði sem búið var að rannsaka og byggja niðurstöður mælinga sem gerðar voru á Árna Friðrikssyni dagana 17.-29. janúar. Loðna fannst á öllu mælingasvæðinu en, var víða mjög dreifð. Mest mældist þó út af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi að Kolbeinseyjarhrygg.

Samkvæmt útreikningum sem byggja á þessum mælingum er áætlað að stærð veiðistofnsins sé nú 969 þúsund tonn. Áður en mælingum lauk var búið að veiða um 65 þúsund tonn á vertíðinni 2014/2015, þar af ríflega 40 þúsund tonn sumarið 2014. Í ljósi gildandi aflareglu um að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar og á grundvelli ofangreindra mælinga í janúar 2015, leggur Hafrannsóknastofnun til að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2014/2015 verði ákveðinn 580 þúsund tonn, að meðtöldum þeim afla sem búið var að veiða þegar mælingar fóru fram. Er það 320 þúsund tonna viðbót við útgefið aflamark í október 2014.