Hafrannsóknastofnun hefur lokið haustmælingu á loðnustofninum og leggur til að heildarkvótinn á komandi loðnuvertíð verði 300 þúsund tonn. Til samanburðar má nefna að kvótinn á síðustu vertíð var 765 þúsund tonn.
Alls mældust tæpir 34 milljarðar af kynþroska loðnu sem gert er ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð eða rúm 800 þúsund tonn. Þar af var fjöldi tveggja ára loðnu um 21 milljarður, sem samsvarar um 470 þúsund tonnum og fjöldi þriggja ára loðnu rúmir 11 milljarðar eða um 320 þúsund tonn. Því er ríflega þriðjungur hrygningarstofnsins samkvæmt mælingunni þriggja ára og eldri loðna en það hlutfall er með því hæsta sem mælst hefur. Ástand loðnunnar var einkar gott og meðalþyngd bæði tveggja og þriggja ára loðnu var óvenju há.
Miðað við þessar mælingar og forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 720 þúsund tonn verði ekkert veitt. Að teknu tilliti til aflareglu sem gerir ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar á hrygningartíma, reiknast veiðistofn loðnu því vera rúm 300 þúsund tonn.
Mjög lítið mældist þó af ársgamalli loðnu eða einungis um 19 milljarðar sem er langt undir þeim mörkum að hægt verði að mæla með upphafsaflamarki fyrir vertíðina 2013/2014.
Hafrannsóknastofnunin mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2013 til samanburðar og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.