Niðurstöður liggja nú fyrir úr loðnurannsóknaleiðangri r.s. Árna Friðrikssyni. Miðað við þessar mælingar og forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 560 þúsund tonn á hrygningartíma verði ekkert veitt.
Samkvæmt aflareglu er gert ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar. Hafrannsóknastofnun leggur því til að og heildaraflamark á vertíðinni 2013/2014 verði 160 þúsund tonn.
Hafrannsóknastofnun mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2014 til samanburðar og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess.
Sjá nánar frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þess má geta að á svipuðum tíma í fyrra gerði Hafrannsóknastofnun ráð fyrir eftir haustmælinguna að hrygningarstofn loðnu væri um 720 þúsund tonn yrði ekkert veitt. Þá lagði stofnunin til að byrjunarkvóti yrði rúm 300 þúsund tonn. Eftir mælingar eftir áramót var bætt við kvótann og lokatalan var 570 þúsund tonn.