Hafrannsóknastofnunin lagt til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að leyfilegur hámarksafli loðnu á þessari vertíð verði 130 þúsund tonn.

Sem kunnugt er hefur rs. Árni Friðriksson verið við mælingar á stærð loðnustofnsins frá því 5. janúar sl. og aðstoðaði rs. Bjarni Sæmundsson við mælingarnar dagana 5.-12. janúar. Áætluð stærð hrygningarstofns loðnu samkvæmt þeirri mælingu var 355 þús. tonn. Ekki náðist þó að kanna allt fyrirhugað leitarsvæði sökum íss sem var fyrir vestanverðu Norðurlandi. Því þótti mikilvægt að endurtaka mælingar.

Dagana 22.-29. janúar var rs. Árni Friðriksson við mælingar á stærð stofnsins úti fyrir Austur- og Norðurlandi, ásamt Súlunni EA sem verið hefur til aðstoðar við kortlagningu loðnu á svæðinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fannst loðna allt frá svæðinu útaf Austfjörðum, norður um, allt að 18°V. Alls mældust 348 þús. tonn af hrygningarloðnu á þessu svæði.

Að teknu tilliti til þessara mælinga er hrygningarstofn loðnu áætlaður um 530 þúsund tonn, en gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar.