Í gær funduðu forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda (LS) með forstjóra og sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar. Fundarefnið var títtnefnd „ýsuvandræði“ sem felast í að krókaaflamarksbátar eiga í miklum erfiðleikum með að veiða þann þorsk sem þeim hefur verið úthlutað.
Á fundinum ítrekaði LS kröfur sínar þar sem hæst ber að veiðiheimildir í ýsu verði tafarlaust auknar um 5.000 tonn. Fundur LS með sjávarútvegsráðherra nú fyrir skömmu vísaði til þess að megin forsenda þess að úr því yrði væri breyting á ráðgjöf stofnunarinnar.
Í frétt á vef LS segir að fulltrúar smábátamanna hafi sótti málið fast á fundinum, en þrátt fyrir eindregnar óskir um að Hafrannsóknastofnun mundi endurskoða ráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár á grundvelli góðrar niðurstaðna í haustralli hefði stofnunin hafnað því alfarið. Forystumenn stofnunarinnar hefðu sagt vandann felast í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Það er mat LS að framhald málsins sé alfarið í höndum sjávarútvegsráðherra. Vandinn sé gríðarlegur þar sem krókaaflamarksbátar séu hver af öðrum að stöðvast þar sem engan kvóta sé að fá og ef eitthvað hrökkvi til sé það verðlagt langt út fyrir öll velsæmismörk.
Nánar er greint frá tillögum LS á vef samtakanna .