Norska hafrannsóknastofnunin hefur verið með fjarstýrða rannsóknabáta til prófunar. Guðmundur Óskarsson segir Hafrannsóknastofnunina hér fylgjast með hvernig það gangi.

„Við vitum að þeir voru að reyna þetta við síldarmælingar í fyrravetur fyrir opnu hafi utan skerjanna. Það gekk ekki vel. En það er nýtt verkefni hjá okkur að skoða möguleikana á ómönnuðum förum og fýsileikann á að fá slíkt,“ segir Guðmundur. Mikið sé horft til reynslu Norðmanna sem keypt hafi tvo fjarstýrða báta frá Kongsberg. „Þetta eru öflugir bátar með tilliti til tóla og tækja en spurningin er hvernig þeir eru í einhverjum veltingi,“ segir Guðmundur og bendir á að aðstæður séu aðrar hér en í Noregi.

Gæti hentað í sumt

„Þeir eru með stóra firði og stóran skerjagarð þar sem þeir þurfa að vera og þetta eru örugglega hentugir bátar fyrir slíkt. Firðirnir okkar eru ekki eins stórir og það eru ekki eins mörg verkefni í þeim. En við erum að skoða þetta og það eru ákveðnir leiðangrar þar sem þetta gæti nýst. Sem dæmi þá erum við með bergmálsleiðangur sem mælir magn ungsíldar í fjörðum norðanlands og vestanlands til að meta nýliðunina í stofninum. Svona bátur kemst grunnt og gæti einmitt verið mjög hentugur í það,“ segir Guðmundur. Að sögn Guðmundar eru mismunandi bátar í boði. „Það er þróun í gangi í þessu og við höfum verið að fá kynningar frá þessum fyrirtækjum.“