Ekki er langt síðan konur fengu ekki brautargengi til náms og í vísindastörfum hérlendis.
Þetta segir í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar sem í dag Alþjóðlegum degi kvenna í vísindum. Í ár sé tíu ára afmæli dagsins og þrjátíu ár frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing.
„Við það tilefni voru gefin fyrirheit um bættan hlut kvenna um allan heim og stjórnvöld margra landa samþykktu framkvæmdaáætlun sem hafði það markmið að skila árangri í jafnréttismálum. Alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum er því skilgetið afkvæmi kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing árið 1995 og aðgerðaáætlunar sem samin var í kjölfarið,“ segir á í færslunni.
Breytingar hægt og rólega
„Á Íslandi njóta konur meira jafnréttis þegar kemur að þátttöku í vísindastörfum og tækifærum til náms en víða í heiminum. En það er ekki langt síðan að konur fengu ekki brautargengi til náms og í vísindastörfum hérlendis. Eitthvað sem flestum þykir fásina í dag og sem betur fer hefur þessi staða breyst hægt og rólega á liðnum árum og áratugum,“ segir á vef Hafró.
Þá segir að fyrir fimmtíu 50 árum eða árið 1975 hafi konur aðeins verið 9 prósent starfsmanna Hafrannsóknastofnunar, eða 14 af alls 125 starfsmönnum. „Heyrðist stundum sagt að það þætti ekki vera kvenmannsverk að fara í rannsóknarferðir á sjó, þó vissulega hafi fáar en öflugar vísindakonur farið í slíkar ferðir á þessum tíma,“ segir í færslunni. Í dag séu konur 36 prósent af heildarstarfsmannafjölda en 45 prósent sé horft til starfsmanna utan áhafna. Hlutfall kvenna meðal vísindafólks hafi þannig hækkað hægt og rólega.
Staða kvenna víða erfiðari
![Sigurlína Gunnarsdóttir. Mynd/Hafró](http://vb.overcastcdn.com/images/141234.width-500.jpg)
„Þó svo þróunin hafi verið konum í hag á Íslandi á síðastliðnum áratugum er staða stúlkna og kvenna víðsvegar í heiminum gagnvart námi og þátttöku í vísindastarfi enn víða jafn erfið (og erfiðari) en hún var á Íslandi um miðbik síðustu aldar og fyrr og því er mikilvægt að fagna deginum með hvatningu til allra stúlkna og kvenna um að sýna vísindum áhuga og taka þátt í vísindastarf,“ segir á vef Hafrannsóknarstofnunar þar sem nánar má lesa um málið auk viðtals við Sigurlínu Gunnarsdóttur rannsóknarmann sem unnið hefur hjá stofnuninni alla sína starfsævi fyrir utan sumarstörf með menntaskóla.
„Eftir á að hyggja finnst mér stundum faglegt líf mitt hafa verið röð tilviljana en um leið líka eins og mér hafi verið stýrt í ákveðna átt,“ segir Sigurlína meðal annars í viðtalinu.