Loðnumælingarleiðangri Hafrannsóknastofnunar lauk án þess að hægt væri að ná almennilega utan um stofninn. Haldið verður aftur af stað á hafísslóðir þegar aðstæður leyfa.
Stofnunin birti síðdegis í gær niðurstöður úr tveggja vikna loðnumælingarleiðangri , en enn þarf að bíða eitthvað eftir lokaráðgjöf fyrir yfirstandandi vertíð.
Þar segir að náðst hafi tvær óháðar mælingar á stofninum, en miklu munaði niðurstöðum þeirra: Útreikningar á hrygningarstofni verði miðaðar við seinni mælinguna, en samkvæmt henni er hrygningarstofninn metinn á 904 þúsund tonn. Þegar tekið er tillit til þess að um 200 þúsund tonn af loðnu hafi veiðst telst stofnstærðin vera 1104 þúsund tonn.
Samkvæmt gildandi aflareglu myndi það skila ráðgjöf upp á 800 þúsund tonn, sem er um 100 þúsund tonnum minna en ráðgjöfin frá í haust þegar stofnunin ráðlagði að hámarksafli vertíðarinnar mætti vera 904 þúsund tonn.
Mæla þarf aftur
Fiskifréttir ræddu við Guðmund J. Óskarsson, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun, nokkru áður en stofnunin birti niðurstöður leiðangursins.
Hann sagði að fyrri mælingin hafi ekki gengið nógu vel og ekki hafi náðst alveg utan um stofninn. Seinni umferðin hafi hins vegar gengið betur.
„Í henni voru aðstæður bara ágætar og veður þokkalegt, ekki miklar frátafir þannig að við erum ánægðir með allt í þeim túr. Við teljum að við höfum náð vel utan um það sem var á þeirri slóð, og munum þá byggja niðurstöðurnar meira á seinni umferðinni,“ segir hann.
Hafísinn truflaði
Tekist hafi að sigla alveg upp undir hafísinn norður af Vestfjörðum, en hafísinn hafi aftrað mælingum þannig að fara þurfi aftur til að skoða betur það svæði.
„Við ætluðum að fara lengra út af Vestfjarðarmiðum og við sjáum það fyrir okkur að það er svæði sem við þurfum að gera betri skil. Við teljum það einsýnt að við munum fara í það þegar færi gefst,ø sagði Guðmundur. „Það er ekki útilokað að meira af loðnu eigi eftir að skila sér þar undan ísnum.“
Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar segir að fyrirhugaður leiðangur gæti hafist um 8. febrúar, háð veðri og hafísskilyrðum. Stefnt sé að kynningu niðurstaðna og lokaráðgjöf um viku síðar.
„Við reynum við að hraða þessu og komum alla vega með niðurstöður úr mælingunni, en erum ekki að koma með nýja ráðgjöf strax. Við viljum bíða með hana þangað til við erum búin að skoða þetta betur,“ sagði Guðmundur. „þetta er eitthvað minna en við gerðum ráð fyrir.“
Eitthvað minna
Hann segir dreifingu loðnunnar hafa verið nokkuð jafna yfir allt svæðið en hún sé þó auðsjáanlega byrjuð að safnast saman syðst í kalda sjónum fyrir austan land, þar sem Norðmennirnir hafa verið að veiða undanfarið.
„Við tókum líka eftir því að hrognafyllingin er ennþá töluvert lág miðað við árstíma, þannig að miðað við það þá er svolítið í hrygningu.“
Hún sé ekki farin að ganga inn í hlýsjóinn ennþá og búast megi við að hún verði frekar sein á ferðinni í hrygningu þetta árið.