Þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári verður 160 þúsund tonn ef farið verður eftir gildandi aflareglu. Það er 10.000 tonnum meira en á yfirstandandi fiskveiðiári. Þetta kemur fram í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar sem kynnt var rétt áðan.
Þorskkvótaaukningin stafar af því að viðmiðunarstofninn er nú metinn á 850 þúsund tonn samanborið við liðlega 800 þús. tonn í fyrra.
Hafrannsóknastofnunin leggur til að ýsukvótinn verði takmarkaður við 45 þús. tonn en kvótinn í ár er 63 þús. tonn.
Þá er gerð tillaga um 40 þús. tonna ufsakvóta en kvótinn er nú 50 þús. tonn.