Rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar hefjast að líkindum síðar í þessum mánuði í tengslum við fyrirhugaða vinnslu á stórþara úti fyrir Norðurlandi.

Karl Gunnarsson, líffræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, segir að rannsóknirnar miðist að því að afla gagna fyrir ákvarðanatöku um magn þess stórþara sem óhætt er að uppskera á svæði úti fyrir Tröllaskaga og víðar á Norðurlandi. Rannsóknirnar eru fjármagnaðar af aðilum sem stefna að fullvinnslu á algínötum úr þaranum.

Þari eru stórir brúnþörungar sem vaxa á botninum neðan fjörunnar. Hér við land vaxa sex tegundir;  stórþari, beltisþari, hrossaþari, marinkjarni, ránarkjarni og dílaþari. Allar hafa þarategundirnar vel aðgreindan stilk og á efri enda hans situr stórt blað. Stilkurinn er oft nefndur þöngull og festan á neðri enda hans þöngulhaus.  Stilkur stórþara getur náð 2ja metra hæð.

Alginöt í bjórfroðunni

„Í þara eru efni, algínöt, sem eru notuð í alls kyns iðnaði. Algínöt hafa verið unnin úr þara að mestu leyti en það eru fleiri brúnþörungar sem innihalda algínöt eins og til að mynda klóþangið sem unnið er á Reykhólum. Algínöt eru notuð í prentiðnaði, sem íblöndunarefni í málningu, trefjar úr algínötum eru notaðar í textíl og þau eru notuð til þess að halda vissum fösum af vökva í upplausn, eins og olíu eða fitu og vatni. Algínöt eru notuð til að halda froðunni í bjórnum stífri. Tannlæknar nota algínat til þess að taka mót af tönnum sinna sjúklinga. Algínötin eru notuð mjög víða og eftirspurnin eykst sífellt á heimsvísu. Verð á algínötum er þó misjafnt eftir gæðum og úr hvaða tegundum það er unnið. Þara-afurðir eru líka notaðar sem áburður, í lyfjaiðnaði, sem fæðubótarefni og íblöndunarefni í matvæli. Kínverjar rækta milljónir tonna af þara sem líkist beltaþara til manneldis,“ segir Karl.

Dýrmæt vara

Hér við land er langmest af þremur tegundum þara, þ.e. stórþari, hrossaþari og beltisþari. Beltisþari hefur ekki verið nýttur til framleiðslu á algínötum. Munurinn á algínötum úr stórþara, eins og til stendur að hefja vinnslu á úti fyrir Norðurlandi, og hrossaþara er sá að þau eru stífari úr stórþara sem býður upp á aðra og verðmætari notkun en úr hrossaþara. Takist að vinna gott algínat úr stórþara er það dýrmæt vara.

Karl segir að þaraskógurinn úti fyrir Tröllaskaga þoli hæfilega nýtingu. Þaraskógurinn myndar búsvæði þar sem aðrar lífverur þrífast. Grásleppan hrygni þar og aðrir fiskar, eins og t.d. þorskseiði, leiti þar skjóls. Sömuleiðis lifi í skóginum ýmis smádýr eins og t.d. krabbadýr sem eru hluti af fæðukeðju hafsins. Það þurfi því að fara með sérstakri gát, eins og jafnan þegar um nýtingu náttúrulegra auðlinda er að ræða. Þaraskógurinn þurfi að hafa tækifæri til þess að endurnýja sig á eðlilegan hátt.

Stefnt á 35.000 tonn

Snæbjörn Sigurðarson, einn af forsprökkum þess að vinnsla hefjist á stórþara úti fyrir Norðurlandi, sagði í Fiskifréttum fyrir fyrir nokkru þegar fjallað var um verkefnið, að stefnt væri að því á fyrstu stigum að sækja 35.000 tonn af stórþara úti fyrir Tröllaskaga, þurrka hann með jarðvarma og vinna úr honum algínöt. Stefnt sé að fullvinnslu hér á landi. Verkefnið kallar á fjárfestingu upp á rúma tvo milljarða króna.„Við höfum gert mælingar á vexti þara en það þarf að athuga hve mikið er af honum á þessum slóðum. Það verður ekki ljóst hve mikið er óhætt að taka af honum fyrr en að þeirri rannsókn aflokinni. Það stendur til núna í sumar að mæla svæðin. Við mældum svæðið út af Tröllaskaga í fyrra og þar reyndist vera mikið af þara. En það þarf að skoða önnur svæði betur áður en ákveðið verður hve mikið er óhætt að taka af þaranum.“

Snæbjörn segir það forgangsatriði að leitt verði í ljós að þaravinnslan hafi ekki neikvæð áhrif á vistkerfið.

Drifkrafturinn lyfjageirinn

„Drifkrafturinn í verkefninu er lyfjageirinn. Við erum í samstarfi við erlenda aðila sem hafa sterkar tengingar inn á markaðinn. Í þaranum eru algínöt sem eru þekkt innihaldsefni í magasýrulyfjum, svo dæmi sé tekið. Alginöt er verðmæt afurð og það er mikil eftirspurn eftir þeim. Noregur hefur verið í einstakri stöðu Miðað við okkar útreikninga er veltan af vinnslu úr 35.000 tonnum af þara á milli 2,5-3 milljarðar króna á ári. Þá er einungis miðað við algínötin en auk þeirra er fjöldi annarra lífvirkra efna í þara sem kunna að skila enn verðmætari afurðum.“

Horft hefur verið til Húsavíkur með staðsetningu vinnslunnar, ekki síst í ljósi mikils jarðhita þar. Útlit er fyrir að starfseminni fylgi 80 stöðugildi í landi og 20 á sjó.

„Mér líst mjög vel á að unnin verði úr þaranum verðmæt vara ef það er gert á sjálfbæran og vistvænan hátt. Vinnslan gæti skapað atvinnu fyrir norðan og yrði til góða fyrir samfélagið,“ segir Karl.