Veiðimenn eru nú hvattir til árvekni gagnvart eldislöxum og til að koma upplýsingum um þá og fiskunum sjálfum til Hafrannsóknarstofnunar. Talsvert hefur verið um frásagnir af meintum eldislöxum í laxveiðiám að undanförnu.

„Mikilvægt er að veiðimenn séu vakandi fyrir mögulegum eldiseinkennum á löxum sem þeir veiða. Einkennin geta verið mjög misáberandi milli eldislaxa sem fer m.a. eftir því hvenær í lífsferlinum viðkomandi lax slapp úr eldi,“ segir á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Sagt er áríðandi að Hafrannsóknarstofnun fá slíka fiska til rannsóknar.

„Í ljósi frétta um slysasleppingar laxa úr sjókvíum er tilefni til að árétta mikilvægi þess að veiðimenn og veiðiréttareigendur séu vakandi yfir hugsanlegum strokulöxum úr sjókvíum í ám. Laxar sem mögulega eru strokulaxar úr eldi hafa nýlega sést í teljurum í ám hér á landi, til dæmis í Laugardalsá,“ segir á hafro.is þar sem myndin hér að ofan úr fiskateljara úr Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi frá því 22. ágúst fylgir. „Ytri einkenni geta bent til eldisuppruna,“ segir um fiska sem þar sjást.

Myndavélar gefa möguleika á greiningu

„Við vöktun á mögulegum áhrifum eldislaxa á náttúrulega laxastofna eru nokkrir þættir vaktaðir. Nokkrar ár hér á landi eru vaktaðar með fiskteljurum. Fiskteljararnir eru búnir myndavélum sem gefa færi á nákvæmu stofnstærðarmati laxfiska, möguleika á mati á magni lúsa á fiski og greiningum á fiski af eldisuppruna.

Reglubundin söfnun erfðasýna af smáseiðum úr ám er notuð til að fylgjast með mögulegri erfðablöndun. Framkvæmd er erfðagreining á uppruna fiska sem veiðast og taldir eru af eldisuppruna.

Á síðustu árum hafa veiðst eldislaxar í stangveiði í ám hér á landi. Greiningar á erfðaefni seiða í ám hafa sýnt merki um erfðablöndun villtra íslenskra laxa og norskættaðra eldislaxa,“ segir einnig á vef Hafrannsóknarstofnunar. Þar er að finna leiðbeiningar um greiningu á hvort veiddur fiskur sé náttúrulegur eða strokufiskur úr eldi.

Rætt er við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknarstofnun, um þetta málefni í næsta tölublaði Fiskifrétta.

Veiddir þú eldislax. Skýringarmynd/Hafrannsóknarstofnun
Veiddir þú eldislax. Skýringarmynd/Hafrannsóknarstofnun