Sjávarhiti í kringum Svalbarða hefur aldrei verið hærri, að minnsta kosti ekki síðustu 2000 árin eða allt frá því að Kristur var uppi. Þetta kemur fram í rannsókn sem fjórir norskir vísindamenn frá háskólanum í Tromsö gerðu og birt er í grein í hinu þekkta vísindariti Science.
Í tvö þúsund ár hefur sjávarhitinn í Golfstraumnum úti fyrir Svalbarða verið í kringum 3,5 gráður, en síðustu 30 árin hefur hann stigið um tvær gráður. Þetta þykir mjög óvenjulegt í sögulegu samhengi. Sjávarlíffræðingar frá Þýskalandi og Bandaríkjunum ásamt vísindamönnunum í Tromsö hafa komist að raun um að hækkun sjávarhitans á norðurslóðum er miklu meiri en hækkun sjávarhita að meðaltali í heiminum öllum. Þeir segja að engin náttúruöfl eða aðrar ástæður skýri þessa miklu hitaaukningu.
Nú segir það sig sjálft að hitamælingar tvö þúsund ár aftur í tímann eru ekki fyrir hendi enda aðeins 150 ár síðan hitamælirinn var fundinn upp. Vísindamennirnir hafa því skoðað steingervinga í setlögum til þess að meta sjávarhita fyrr á tíð. Sýni úr setlögum á hafsbotni á 1500 metra dýpi vestan við Svalbarða hafa verið tekin í þessum tilgangi.