Snurvoðar- og netabáturinn Hafborg EA var sjósettur í borginni Szczecin í Póllandi á þriðjudag. Það er Hafborg ehf., í Grímsey sem er eigandi skipsins sem leysir samnefnt eldra skip af hólmi.
Aðeins eru liðnir um átta mánuðir frá því skrifað var undir samninga um smíðina, en það var fyrirtækið Ráðgarður sem hannaði skipið. BP Shipping Agency á Íslandi sá um sölu og samningagerð
Tekur 50 tonn í kör
Núverandi Hafborg EA, sem var smíðuð á Ísafirði 1998, er 18,7 metrar á lengd og getur tekið 15 til 17 tonn í kör. Hún hét áður Stapavík AK en var keypt til Grímseyjar árið 2005. Nýi báturinn er mun stærri, eða tæpir 26 metrar á lengd og getur tekið um 50 tonn af fiski í kör.
Í viðtali við Fiskifréttir þegar skrifað hafði verið undir smíðasamninginn í fyrra, útskýrði útgerðarmaðurinn og skipstjórinn, Guðlaugur Óli Þorláksson, að vaxandi krafa um að auka verðmæti aflans með betri meðferð um borð væri ein megin ástæða þess að ráðist var í smíðina. Eins væri hægt að huga að fleiri verkefnum með stærri báti.
Báturinn verður nú dreginn til bæjarins Hvide Sande í Danmörku þar sem hann verður kláraður. Ef veður verður gott er áætlaður komutími til Danmerkur á mánudaginn.
Fréttin birtist í nýjustu Fiskifréttum 27. júlí