Fjórum skipverjum á aflvana fiskibáti austur af Barðanum var í nótt komið til bjargar af áhöfn áhöfn björgunarskipsins Hafbjargar í Neskaupstað.

Björgunaraðgerðin gekk vel og tók Hafbjörg bátinn í tog að landi eins og lesa má um í eftirfarandi tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg:

„Klukkan 15 mínútur í fjögur í morgun var áhöfn björgunarskipsins Hafbjargar í Neskaupstað kölluð út vegna fiskibáts sem þá var staddur um 22 sjómílur austur af Barðanum og hafði misst vélarafl.

Um 30 mínútum síðar var Hafbjörgin lögð úr höfn og tók stefnuna að bátnum. Um borð biðu 4 skipverjar eftir aðstoð í nokkrum vindi, 5 til 10 m á sekúndu frá suðvestri.

Sigling Hafbjargar að bátnum gekk vel og rétt upp úr klukkan 6:30 í morgun tókst áhöfn Hafbjargar að koma taug yfir í bátinn og í kjölfarið stefnan sett til lands með bátinn í togi.

Skipin eru nú á rólegri siglingu á um 8 sjómílna hraða austur af Reyðarfirði,“ sagði í fréttatilkynningu sem send var út á áttunda tímanum í morgun.