Norsku loðnuskipin við Ísland tilkynntu um 12.800 tonna loðnuafla í síðustu viku og var þá heildarveiði þeirra á vertíðinni orðin 15.500 tonn. Þetta kemur fram á vef norska síldarsamlagsins.
Fram kemur að slæmt veður hafi gert loðnuskipunum erfitt fyrir. Úti fyrir Norðurlandi hafi fundist stór og átulaus loðna, af stærðinni um 40 stykki í kílói og með 12-13% hrognaprósentu. Vandinn hafi hins vegar verið sá að frá Langanesi og suður um hafi veðrið verið þannig að erfitt hafi verið að sigla með fiskinn án þess að hráefnið skaðaðist.
Á föstudag hafi rofað til þannig að flotinn hafi getað leitað loðnu við norðaustanvert landið en þá reyndist sú loðna full af átu og ekki hentug til manneldisvinnslu. Við Norðurland voru þá fjórir bátar að veiðum og fengu einhvern afla sem seldur var til kaupenda í Noregi.
Alls mega Norðmenn veiða um 40.000 tonn af loðnu við Ísland, samkvæmt núverandi úthlutun, en alls hafa um 30 norsk skip verið að veiðum hér.
Hafrannsóknastofnun endurtók loðnumælingu í síðustu viku og er þess beðið með óþreyju hvort bætt verði við útgefinn kvóta.