Vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, hafa staðið í ströngu síðustu vikur við að merkja síld. Á þremur vikum tókst þeim að merkja 33.500 fiska.
Stofnunin greinir frá þessu á vef sínum. Þar segir að síldarmerkingar séu viðkvæm nákvæmnisvinna, en merkinu er skotið inn í búk síldarinnar með tæki sem líkist skammbyssu. Gæta þarf vel að hverjum fisk sem merktur er, hann má ekki hafa orðið fyrir miklu hnjaski því þá eru litlar líkur á því hann lifi lengi eftir að hafa verið settur út í sjó aftur.
„Merkið liggur laust inn í búk síldarinnar, og það lítur út fyrir að hún þoli merkið harla vel,“ segir á vef stofnunarinnar.
Merkið sjálft er á stærð við töflu í það eru settar rafrænar upplýsingar meðal annars um stærð síldarinnar þegar hún var merkt, staðsetningu og dagsetningu.
Þetta er síðan borið saman við stærð fisksins, staðsetningu og tíma þegar hann veiðist. Nemar þurfa að vera um borð í síldarbátunum til að greina merkin. Þetta verður gert árlega í sérstökum merkingarleiðangri stofnunarinnar.
„Markmiðið er að eftir fimm til sex ár verðum við komin með tímaröð sem hægt yrði að nota í stofnmælingum norsku vorgotssíldarinnar, ásamt upplýsingum úr hrygningarleiðangrinum og alþjóðlega vistkerfisleiðangrinum í maí,“ segir Aril Slotte, sem stýrir þessum rannsóknum.