Makrílvinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hinn 30 júní sl. Síðan hafa skip komið með liðlega 7.000 tonn til vinnslu þangað og síðar í dag mun Beitir NK koma með 1.300 tonn til viðbótar.

Þetta kemur fram í frétt Síldarvinnslunnaren veiðin hefur farið fram í Síldarsmugunni og verið heldur treg. Veiðisamstarf skipa gerir það að verkum að vinnslan hefur verið nokkuð samfelld, einkum upp á síðkastið.

Það eru fimm skip sem landa hjá Síldarvinnslunni og hafa samstarf um veiðarnar. Skipin eru Börkur NK, Beitir NK, Barði NK, Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Samstarfið felur í sér að afla skipanna sem taka þátt í því er hverju sinni dælt um borð í eitt skip sem siglir síðan með hann til hafnar á meðan hin skipin halda áfram veiðum. Þetta leiðir til þess að skipin eru ekki að sigla langan veg með litla farma og eins tryggir fyrirkomulagið að aflinn kemur ávallt að landi eins ferskur og mögulegt er.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Karl Rúnar Róbertsson, gæðastjóra í fiskiðjuverinu, og upplýsti hann að í fyrstu hefði makríllinn verið hausskorinn, slógdreginn og frystur en nú væri hins vegar byrjað að flaka og það gengi vel. Þá gat hann þess að í fiskiðjuverinu hefði verið samfelld vinnsla upp á síðakastið; þegar löndun lyki úr einu skipi væri hið næsta komið til löndunar. Barði NK kom með 1.200 tonn fyrir síðustu helgi, síðan kom Börkur NK á sunnudaginn með 1.350 tonn og nú væri verið að vinna 1.050 tonn úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Á miðunum er nú verið að setja afla í Barða og síðan kemur röðin að Bjarna Ólafssyni.

Eins og fyrr segir er Beitir NK á landleið með 1.300 tonn og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar síðdegis í dag. Skipstjóri á Beiti er Sigurður Valgeir Jóhannesson og ræddi heimasíðan stuttlega við hann um aflabrögðin.

„Þessi afli fékkst á einum og hálfum sólarhring í átta holum. Við tókum fjögur hol en svo var afli tekinn úr tveimur holum hjá Barða og tveimur hjá Bjarna Ólafssyni. Við erum að veiða austarlega í Síldarsmugunni við norsku línuna. Veiðisvæðið er um 350 mílur frá Neskaupstað og það tók okkur 30 tíma síðast að sigla þangað. Nú erum við á landleið í verra veðri og ég geri ráð fyrir að siglingin taki eina 36 tíma. Fiskurinn í Smugunni er dreifður og holin eru að gefa frá 50 og upp í 250 tonn en oftast er togað í 7 – 8 tíma. Flest holin gefa 100 – 150 tonn þannig að þetta mætti vera betra. Það er í reynd veiðisamstarf skipanna sem gerir þessar veiðar mögulegar. Nú eru hafrannsóknaskip að kanna ástand uppsjávartegunda á okkar veiðislóðum og menn bíða spenntir eftir niðurstöðum. Eitt er þó víst að það virðist vera nóg af síld. Við sigldum til dæmis yfir heljarmikla síldartorfu út af Norðfjarðarhorni þegar við héldum á miðin að lokinni löndun á dögunum. Síldin virðist sem sagt vera komin alveg upp að landinu,“ segir Sigurður Valgeir í fréttinni.