Þótt verulegur árangur hafi náðst í slysavörnum til sjós í Noregi á síðustu árum, rétt eins og á Íslandi, hafa norskir sjávarútvegsmenn áhyggjur af tíðum dauðsföllum tengdum smæstu fiskibátunum. Á síðasta ári fórust samtals sex norskir atvinnufiskimenn við störf sín og voru allir trillukarlar.

Samkvæmt tölum norsku rannsóknastofnunarinnar SINTEF hafa alls 122 trillusjómenn farist við störf sín síðastliðin 22 ár eða frá árinu 1990. Slysin flokkast þannig að 53 dóu þegar bátar fórust, 40 drukknuðu eftir að hafa fallið fyrir borð út á rúmsjó, 15 drukknuðu í höfnum og 14 dóu í öðrum slysum tengdum starfi trillukarla.

Fiskerbladet/Fiskaren fjallar um þetta mál í dag. Bent er á að algengt sé að þeir smábátar sem farist eða lendi í vandræðum séu komnir vel til ára sinna og sjómennirnir á þeim sömuleiðis. Stjórnvöld hafi reynt að stemma stigu við sjóslysunum á minnstu bátunum með því að leggja til strangari reglur um búnað þeirra en þessum tillögum hafi verið mótmælt hástöfum því trilluútgerðirnar hafi ekki fjárhagslegan grundvöll til að mæta þeim.

Af þessum ástæðum hefur formaður Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, lagt til að smábátaeigendur fái auknar veiðiheimildir til þess að geta endurnýjað báta sína og stækkað þá þannig að forsenda sé fyrir því að tveir menn verði jafnan á bátunum í stað eins nú.