Sigfús Sigurðsson í Fiskbúð Fúsa í Skipholti segir reksturinn hafa þyngst á síðustu misserum. Verð á fiski sé að hækka hægt og rólega á markaði. Sama gildi um önnur aðföng og rekstur húsnæðisins.
„Fólk er aðeins farið að kíkja á að verðið er hærra en það var,“ segir Sigfús og bendir á að langt í frá allur fiskur sem veiddur er í kringum Ísland fari á markað hér heldur sé hann að langmestu leyti fluttur beint út.
„Ef allur fiskur færi á markað hér innanlands yrði hann náttúrlega miklu ódýrari. Hér milli jóla og nýárs voru útflutningsmenn, fiskbúðir og fiskvinnslur að berjast um kannski fjörutíu tonn af þorski. Ef menn hefðu verið að slást um þrjú hundruð tonn myndi verðið náttúrlega lækka sjálfkrafa,“ segir Sigfús sem er þó alls ekki að gefast upp.
Langir dagar í búðinni
„Það er ekkert á döfinni hjá mér að hætta þótt maður myndi kannski hugsa það ef maður myndi vinna milljarða í lottó. Bæði er maður búinn að byggja reksturinn svolítið vel upp og svo finnst mér þetta mjög skemmtilegt þannig að ég sé ekki tilganginn í því að hætta. Ég er með leyfi til að reka verslun til 2030. Þegar þar að kemur sjáum við bara hvað gerist,“ segir Sigfús sem stendur vaktina einn frá morgni til kvölds.
„Ég opna tíu en þarf að gera réttina áður og hafa allt tilbúið. Þannig að þegar dóttir mín er ekki hjá mér er ég að mæta á milli klukkan sjö og korter yfir. En þegar hún er hjá mér mæti ég um klukkan átta þegar hún er farin í skólann.“
Þannig að vinnudagarnir eru langir hjá Fúsa.
Hlutastarfsmaður ófundinn
„Dagurinn líður einn, tveir og bingó en það væri gott að vera með einhvern með sér svo maður gæti skroppið frá,“ segir Sigfús sem hefur leitað að starfsmanni í hlutastarf.

„Þeir sem hafa sótt um hafa helst verið fólk sem talar ekki íslensku og mjög bjagaða ensku. Síðan hefur mikið af ungu fólki verið að sækja um. Þau sem hafa verið álitlegust eru skólakrakkar utan af landi en þau geta ekki unnið á mestu álagstímunum,“ segir Sigfús sem þarf einfaldlega að skella í lás ef hann þarf frí frá búðinni.
„Ég bara lokaði í tvær vikur í sumar og fór í frí. Það eru flestar fiskbúðir í svona litlum rekstri eins og ég sem loka í einhvern tíma. Svo er ég að fara í smá viðgerð 22. janúar og þarf þá að loka í tvær vikur. Maður er orðinn eins og gömul, ryðguð díselvél,“ segir Sigfús og hlær.
Laxinn náð sér á strik
Umræða um sjókvíaeldi á laxi hefur verið áberandi. Þegar Sigfús hóf sinn rekstur segir hann hlutfall sölunnar milli lax og bleikju hafa verið 65 á móti 35, laxinum í vil.
„Síðan fór ég að kaupa bleikju hjá Sveini Viðarssyni í Vatnsfirði á Barðaströnd, sem er afburða góð bleikja. Síðan þá hafa hlutföllin alveg snúist við og bleikjan er orðin 65 prósent af sölunni í bleika fiskinum,“ segir Sigfús. Laxinn hafi þó selst ágætlega áfram.
Allur lax undir sama hatt
„En þegar umræðan um fiskeldi og lúsina hófst fór fólk að fúlsa við laxinum og kaupa þá meiri bleikju eða annað,“ segir Sigfús sem sjálfur kveðst alla tíð hafa verið með lax úr landeldi. „Þegar maður fór að merkja þetta sem landeldi fór fólk að kaupa laxinn aftur svo það er allt komið á sama stað og það var.“

Sigfús segir umræðuna um sjókvíaeldið hafa verið dálítið óvægna. „Fólk fór að setja þetta allt undir sama hatt. Eins og margur annar er ég ekkert hrifinn af því hvernig er verið að gera hlutina, eins og til dæmis þar sem jafnvel tugir þúsunda fiska eru að sleppa,“ segir Sigfús. Líka þurfi að gæta að því að kvíarnar séu ekki ofsetnar. „Þetta skiptir mjög miklu máli, bæði upp á velferð dýranna og gæði þess sem verið er að framleiða.“
Vantar gæði í landsliðinu
Í dag hefst EM í handbolta og fyrst þessi gamalreynda handboltahetja er komin í talfæri er hann beðinn að meta stöðuna á íslenska liðinu.

„Mér líst nokkuð vel á þetta. Það eru náttúrlega ekki miklar breytingar á mannskap miðað við hvernig hann hefur verið undanfarin ár,“ segir Sigfús. Það taki tíma fyrir nýja þjálfarann, Snorra Stein Guðjónsson, að ná sínum áherslum inn.
Gætu náð langt ef hjartað er með
„Hann er að breyta áherslunum í vörninni, sóknarleikurinn er hraðari og keyrslan meiri. Mér finnst samt vanta viss gæði inn í sumar stöður í liðinu. Það vantar leiðtoga sem getur tekið ábyrgðina og stjórnað varnarleiknum. Mér finnst vanta að línumennirnir séu meira að blokka og búa til færi fyrir skytturnar,“ segir gamli línumaðurinn.
„En ef hjartað og hugurinn er með hefur það mikið að segja þegar komið er í mótið. Ef þeir ná samstöðu og góðu „rönni“ eins og maður segir þá er aldrei að vita hvað gerist. Þá geta þeir náð helvíti langt.“