Útgerðin Christian í Grótinum í Færeyjum hefur tilkynnt að hún sé hætt við áform um að láta smíða nýtt uppsjávarskip í stað núverandi Norðborgar. Talsmaður útgerðarinnar, Kristian Martin Rasmussen, segir í viðtali á vef blaðsins Norðlýsið að ástæðan sé nýtt stjórnarfrumvarp um veiðigjöld og uppboðssölu á kvótum sem nú liggur fyrir færeyska lögþinginu.

„Óvissan er of mikil og þess vegna vill enginn fjárfesta. Einnig er óvíst hvernig nýju gjöldin eiga að skiptast milli sjómanna og útgerðar og allt þetta skapar ófrið,“ segir Rasmussen í viðtalinu við blaðið en búið var að  hanna nýja skipið.

Útgerðin á tvö skip, Norðborg (smíðaár 2008) og Christian í Grótinum (smíðaár 2003).

Eins og komið hefur fram í Fiskifréttum hefur færeyski sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp um að 15% af veiðiheimildum í makríl, síld og kolmunna á næsta ári verði sett á uppboð. Jafnframt verða 15% af kvóta Færeyinga í Barentshafi boðin upp. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að veiðigjald á úthlutaðan makrílkvóta verði 1 færeysk króna á kíló (18.89 ISK), 0,75 fær.kr/kg fyrir síld (14,18 ISK) og 0,20 kr/kg fyrir kolmunna (3,78 ISK).

Áætlað er að tekjur af uppboðinu og af veiðigjöldum á þessar tegundir sem lögð verða á úthlutaðan kvóta muni nema jafnvirði 3,4 milljarða íslenskra króna á næsta ári.