Hæstiréttur hefur dæmt að vegna vísa hafi átt frá héraðsdómi máli Vinnslustöðvarinnar í svokölluðu markílmáli. Skort hafi gögn sem fyrirtækin hefðu átt að geta aflað og lagt fram. Fyrirtækið íhuga nú næstu skref. Huginn fékk hins vegar dæmdar 250 milljónir króna bætur frá ríkinu í sama máli.
Þetta kemur fram í eftirfarandi færslu á vef Vinnslustöðvarinnar þar sem fjallað er um dóm Hæstaréttar:
Tilkynning vegna makríldóma Hæstaréttar
3/07/25
Í gær kvað Hæstiréttur upp dóma í máli Hugins annars vegar og Vinnslustöðvarinnar hins vegar gegn íslenska ríkinu vegna úthlutunar ríkisins á aflaheimildum í makríl á árunum 2011 og 2018.
Hæstiréttur taldi matsgerðina í máli Vinnslustöðvarinnar hf. reista á ófullnægjandi forsendum vegna skorts á gögnum sem Vinnslustöðinni hefði átt að vera unnt að afla og leggja fram. Af því leiddi að matsgerðin byggðist á almennum forsendum og útreikningum sem ekki stæðu í beinum tengslum við atvik málsins. Þetta endurspeglaðist meðal annars í óviðunandi óvissumörkum í niðurstöðu matsgerðar en þau námu 30% til hækkunar eða lækkunar.
Hæstiréttur taldi að þótt erfiðleikum kynni að vera bundið fyrir Vinnslustöðina að færa nákvæmar sönnur á fjárhæð ætlaðs tjóns síns yrði lagt til grundvallar að honum hefði verið unnt í mun ríkari mæli en raunin var að leggja fram sundurliðuð gögn um tekjur sínar og gjöld eftir tegundum og starfsþáttum á umræddu tímabili. Af þessum ástæðum brysti skilyrði til að ákveða Vinnslustöðina bætur að álitum og yrði að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Ragnar H. Hall er lögmaður Vinnslustöðvarinnar.
„Hæstiréttur telur að leggja þurfi frekari grundvöll að sönnun á umfangi fjártjóns með frekari gagnaöflun í máli Vinnslustöðvarinnar. Málinu er því vísað frá dómi. Sú niðurstaða er vonbrigði í ljósi niðurstaðna héraðsdóms og Landsréttar, en felur ekki í sér lyktir máls, heldur þarf að höfða málið að nýju að gættum fram komnum sjónarmiðum.“
Stjórn Vinnslustöðvarinnar rýnir nú dóminn og tekur í kjölfarið ákvarðanir um næstu skref í málinu.
Í máli Hugins kemur fram í dómi Hæstaréttar að með hinni ólögmætu tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl á fyrrgreindu árabili hefðu atvinnuréttindi Hugins ehf. verið skert. Þau nytu verndar 72. gr. stjórnarskrár en sú vernd væri takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Réði þar mestu að atvinnuréttindi væru háð óvissu um varanleika og efnislegt inntak, meðal annars vegna þess að löggjafanum væri ætlað víðtækt svigrúm til þess að grípa inn í nýtingu þeirra og ráðstöfun. Væri slík óvissa veruleg í tilviki mögulegrar nýtingar aflaheimilda í flökkustofni uppsjávarfisks eins og makríls.
Talið var að Huginn hefði sýnt nægilega fram á að hann hefði orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af völdum þeirra bótaskyldu athafna íslenska ríkisins að standa með ólögmætum hætti að úthlutun aflaheimilda í makríl til Hugins á árunum 2011 til 2018. Voru því skilyrði talin til að dæma honum bætur að álitum og íslenska ríkið dæmt til að greiða Hugin 250.000.000 króna í bætur.
Stefán A. Svensson er lögmaður Hugins.
„Það er jákvætt að Hæstiréttur skuli viðurkenna það grundvallaratriði að með hinni ólögmætu tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl á fyrrgreindu árabili hefðu atvinnuréttindi verið skert sem baki ríkinu skaðabótaskyldu. Hæstiréttur tiltekur hins vegar jafnframt að auðlindanýting sé eðli málsins samkvæmt háð talsverðri óvissu um ýmis atriði, meðal annars að gættu svigrúmi löggjafans á sviði fiskveiðistjórnunar auk þess að Huginn hefði þurft að auka veiðigetu sína með því að bæta við skipakost sinn, breyta skipi sem hann nýtti eða með öðrum ráðstöfunum. Að því virtu eru bætur ákvarðaðar lægri heldur en héraðsdómur og Landsréttur höfðu gert.“