Niðurstöður haustralls Hafrannsóknastofnunar liggja nú fyrir. Vísitala þorsks í stofnmælingu að hausti árið 2015 er sú hæsta síðan mælingar hófust árið 1996. Vísbendingar eru um að 2014 árgangur þorsks sé stór og sá stærsti síðan mælingar hófust árið 1996.
Svipað fékkst af öðrum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2015 og árið 2014 og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi rannsóknanna.
Vísbendingar eru um að 2014 og 2015 árgangar ýsu séu yfir meðalstærð eftir langvarandi lélega nýliðun. Niðurstöður mælingarinnar sem hér eru kynntar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi helstu nytjastofna við landið sem lýkur með ráðgjöf í júní 2016.
Stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall) fór fram í 19. sinn dagana 7. október – 9. nóvember s.l. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi (1. mynd). Alls var togað með botnvörpu á 374 stöðvum. Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og fleiri djúpsjávarfiska. Auk þess er markmiðið að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þeirra nytjastofna sem Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) nær yfir og safna upplýsingum um útbreiðslu, líffræði og fæðu tegundanna. Til rannsóknarinnar var annars vegar notað rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson RE og hins vegar leigður togarinn Jón Vídalín VE.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.