Nýlega var gengið frá sölu á tíu nýjum rækjutrollum frá Cosmos Trawl, dótturfélagi Hampiðjunnar í Danmörku, til tveggja norskra útgerðarfyrirtækja. Mikill hugur er í útgerðarmönnum norskra rækjutogara fyrir rækjuvertíðina í Barentshafi, sem hefst nú í vor, enda hefur verð á iðnaðarrækju aldrei verið hærra.
Að sögn Thorleif Grønkjær, sölustjóra Cosmos Trawl, er það fátítt núorðið að svo stórar pantanir, sem tíu rækjutroll vissulega eru, berist svo að segja á sama tíma. Ástæðan að þessu sinni sé þó einfaldari en oft áður. Rækjuverð hafi hækkað gríðarlega og rætt sé um að meðalverð á iðnaðarrækju sé nú um 27 til 28 DKR/kg eða sem svarar til 540 til 560 ISK/kg. Þá séu horfur taldar á góðri rækjuveiði í Barentshafi í vor eftir að þorskveiðum lýkur.
Sjá nánar á vef Hampiðjunnar.