Sólveig R. Ólafsdóttir segir sjóinn fyrir norðan enn vera hlýjan miðað við langtímameðaltal. Hitinn í efri lögum sunnan og vestan lands um eða undir langtímameðallagi.
Hafrannsóknastofnun hefur sent frá skýrslu um rannsóknir á ástandi sjávar árin 2017 og 2018.
„Í megindráttum má segja að á árunum 2017 og 2018 hafi hiti í efri lögum sjávar sunnan og vestan við landið verið um eða undir langtímameðallagi en um eða yfir meðallagi fyrir norðan og austan landið. Selta hafði lækkað nokkuð frá fyrri árum,“ segir í skýrslunni.
Varðandi þróunina almennt undanfarna áratugi segir að hiti og selta í hlýsjónum sunnan og vestan við landið hafi farið hækkandi eftir 1995 og þar til 2003 og 2004, en þá mældist mesta útbreiðsla hlýsjávar umhverfis landið í 30 ár.
„Gildi lækkuðu lítillega 2005 eftir hafís rak inn á Norðurmið í lok veturs. Eftir árið 2005 voru hiti og selta í hlýja sjónum sunnan og vestan við land áfram vel yfir meðallagi en hiti hafði heldur lækkað frá árunum 2003 og 2004.“
„Það hefur heldur lækkað hitinn í hlýsjónum sunnan lands og vestan,“ segir Sólveig R. Ólafsdóttir, aðalhöfundur skýrslunnar. „Við myndum samt ennþá segja að það sé hlýtt, miðað við langtímameðaltal.“
Hún er þessa dagana í leiðangri við mælingar á ástandi sjávar, en haldið er í slíka leiðangra fjórum sinnum á ári, vetur, sumar, vor og haust.
„Þegar þessi leiðangur klárast í næstu viku gefum við út fréttatilkynningu með niðurstöðum hans. Það er síðan aðeins meiri vinna að setja það í meira langtímasamhengi.“
Feitir bitar
Athygli vekur líka sú mikla breyting á kísilstyrk í hlýsjónum sem varð árið 2002. Í skýrslunni segir að sú breyting tengist breytingum á hita og seltu sjávarins en hún hefur síðan gengið til baka að miklu leyti.
„Þar lækkaði vetrarstyrkur kísils um fjórðung og þar með sá forði kísils sem kísilþörungar hafa úr að spila í komandi vorblóma. Frá árinu 2014 hefur vetrarstyrkur kísils í hlýsjónum hækkað og var nærri langtímameðaltali á árunum 2017 og 2018.“
Sólveig segir þessar breytingar hafa orðið í öllu Norðaustur-Atlantshafi, ekki aðeins hér við land. Erfitt sé hins vegar að átta sig á hvaða áhrif þessar breytingar hafi haft á lífríkið í hafinu. Það sé seinni tíma mál að vinna úr þeim upplýsingum.
Hins vegar sé kísilþörungurinn mikilvægur í fæðukeðjunni, eins konar ofurfæða, „ríkir af fitusýrum og orku og mjög góð leið til að koma frumframleiðninni yfir í næstu skref í fæðukeðjunni. Þetta eru feitir bitar, ef svo má segja.“
Í skýrslunni kemur fram að athuganir á ástandi sjávar umhverfis Ísland að vorlagi hafa staðið samfellt frá um 1950 en frá því eftir 1970 á öðrum árstíðum. Tíðni athugana hefur verið nálægt fjórum sinnum á ári í tæplega 50 ár, en stöðvafjöldi er nú minni en var á upphafsárum verkefnisins.