Skoski líffræðingurinn Heather Rosemary Philp varði fyrir skemmstu doktorsritgerð sína í líffræði við Háskóla Íslands sem fjallar um aukna arðsemi veiða og vinnslu humars.
Verkefnið gengur út á að auka skilning á grunnatriðum lífsferlis krabbadýra, þ.e. sjálfu hamskiptaferlinu. Þá lagt mat á skemmdir sem myndast á ytri stoðgrind og tap á útlitmum frá því humarinn var veiddur þar til honum var pakkað í frystiöskjur.
Í þriðja hluta verkefnisins eru kannaðar leiðir til að flytja lifandi humar á markað. Lifandi humar er allt að þrefalt dýrari vara en frystur.
Að lokum er fjallað um leiðir til að auka tekjur með því að nýta aukaafurðir sem áður var fargað.
Meginniðurstöður nýbakaðs doktors benda til þess að unnt sé að auka verðmæti humars úr sjó með tilteknum breytingum varðandi meðferð á afla, löndun og flutningi á markað.
Haustið 2006 ýttu Háskóli Íslands og Vinnslustöðin úr vör humarrannsóknaverkefni. Vinnslustöðin fékk Guðrúnu Marteinsdóttur prófessor til liðs við sig sem umsjónarmann og auglýsti síðan eftir umsækjendum til doktorsnáms í fiskifræði þar sem gert var ráð fyrir humarrannsóknum með styrk úr AVS-sjóðnum í samstarfi við HÍ, fræðasetrið í Eyjum og Rutgers University í New Jersey í Bandaríkjunum.
Alls bárust 34 umsóknir, þar af ein íslensk. Doktorsefnið, sem fyrir valinu varð, var Heather Philp. Hún átti eftir að dvelja langdvölum í Eyjum og í Reykjavík vegna þessa verkefnis og hóf doktorsnám við Háskóla Íslands 2007.