„Hann er jafngóður og nýr,“ segir Matthías Sveinsson, framkvæmdastjóri Víkingbáta, þar sem verið er að leggja loka hönd á viðgerðir á strandveiði bátnum Höddu HF 52.
Eins og kunnugt er skemmdist Hadda er báturinn lenti í árekstri við erlenda flutningaskipið Longdawn úti af Reykjanesi í fyrra vor með alkunnum eftirmálum. Báturinn var smíðaður hjá Víkingbátum árið 2023.
„Það þurfti að gera við botninn á bátnum og skipta um búnað í honum, rafkerfi og vél enda fór hann á kaf,“ segir Matthías. Um er að ræða tryggingamál.
Nóg að gera hjá Víkingbátum
„Tryggingarnar tóku þetta allt saman þannig að það yrði bara skipt um þann búnað sem væri laskaður eða ónýtur,“ segir hann.
Hadda fer því að verða klár í slaginn í strandveiðar sumarsins. „Við erum á síðustu metrunum með hann, það er aðeins verið að fínisera, setja í hann eina rúðu og græja siglingatækin,“ segir Matthías.
Að öðru leyti kveður Matthías nóg að gera hjá Víkingbátum að venju. „Við komum okkur alltaf í einhverja vitleysu,“ segir hann. „Við erum alltaf að smíða Sómabáta og erum í alls kyns verkefnum.“
Enginn hasar eftir breytingar
Í ljósi boðaðra breytinga á strandveiðikerfinu með tryggingu á 48 veiðidögum er Matthías spurður hvort aukning hafi orðið í pöntunum en hann segir ekki svo vera.
„Það er enginn hasar, þetta er alltaf sama endurnýjunin,“ segir Matthías og bendir á að nú eigi enn að herða reglurnar.
„Nú þarf að eignaraðildin í hverjum báti að vera 51 prósent. Svo þurfa menn að skrá alla báta fyrir 15. apríl og það er fyrirsjáanleiki fyrir stjórnvöld hversu margir verða á strandveiðum þannig að menn koma ekkert inn í kerfið um miðjan maí, eða í júní, júlí eða ágúst. Það hefur oft orðið aukning á tímabilinu. Mennhafa verið á grásleppu og öðru og komið svo inn í kerfið,“ segir Matthías Sveinsson.