Háafell, sem er dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. á Ísafirði, stóð fyrir kynningu á nýju umhverfismati fyrir 4.500 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi í gær. Samkvæmt því sem fram kemur á www.bb.is var fundurinn í Edinborgarhúsinu og mættu 70 -80 manns til þess að fylgjast með.
Háafell hefur þegar leyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Djúpinu og sækir um leyfi til þess að auka það um 4.500 tonn. Miðað við gildandi burðarþolsmat og gildandi áhættumat vegna erfðablöndunar myndi viðbótin öll vera til eldis á ófrjóum laxi.
Fram kemur á bb.is að Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, segir að þetta sé lokaferlið í tveggja ára vinnu við hið nýja umhverfismat þar sem gerð er grein fyrir væntanlegum áhrifum viðbótareldisins á umhverfið. Hann segir að þetta sé reyndar þriðja umhverfismatið sem Háafell gerir í Djúpinu. Sótt er um að auka við eldið á þeim þremur stöðum sem fyrirtækið hefur þegar leyfi fyrir eldi og því er ekki farið fram á nýjar staðsetningar fyrir kvíar.
Háafell ehf. hefur með höndum eldisstarfsemi í Ísafjarðardjúpi. HG/Háafell hefur verið með fiskeldisstarfsemi frá árinu 2001, fyrst í þorski og regnbogasilungi en frá árinu 2022 í laxi. Á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi er rekin landeldisstöð sem framleiðir seiði en miðstöð þjónustu við fiskeldið er í Súðavík.