Arnarborg ÍS 260 kom til heimahafnar á Ísafirði í fyrradag úr slipp á Akureyri. Skipið hét áður Gunnbjörn ÍS 302 og þar áður Framnes ÍS 708 þegar það var gert út frá Þingeyri. Nýr eigandi skipsins er útgerðarfélagið Sólberg ehf. á Ísafirði, sem er í eigu hjónanna Sigrúnar Fjólu Baldursdóttur og Arnars Kristjánssonar útgerðarmanns. Fyrir eiga þau rækjuskipið Ísborg ÍS 250.
Frá þessu er skýrt á vefnum bb.is. Arnar verður skipstjóri á Arnarborginni, að minnsta kosti fyrst um sinn, en hann hefur verið skipstjóri á Ísborginni jafnframt því að gera út. Til að byrja með fer Arnarborg á rækjuveiðar hér við land og leggur upp hjá rækjuverksmiðjunni Kampa á Ísafirði.
Gunnbjörn ÍS var síðast í útgerð haustið 2013 og þá á rækjuveiðum.