Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærkvöldi að lokinni veiðiferð. Landað verður úr skipinu í dag og mun það halda á ný til veiða síðdegis.
Rætt er við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar og hann spurður hvernig veiðin hefði gengið.
„Við vorum fimm og hálfan dag að veiðum og aflinn var 114 tonn, mest ýsa og síðan þorskur og ufsi. Veitt var í Berufjarðarál, á Papagrunni og í Lónsbugtinni. Það var fínasta veður allan tímann en staðreyndin er sú að við fengum ósköp lítið þar til við komum á Gauraslóðina. Gauraslóðin er við Hvalbakinn og Lónsbugtina og þar var ágætis kropp. Verst er að Gaurasvæðið er býsna erfitt. Þar er mikið rifið og reyndar hafa menn tapað trollum þar. Við rifum talsvert núna en aflinn þarna bjargaði veiðiferðinni þannig að það er engin ástæða til að kvarta mikið,” sagði Hjálmar Ólafur.