Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar aðfaranótt mánudags með fullfermi. Aflinn var 115 tonn og nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri var ánægður með túrinn.
„Þetta gekk býsna vel. Við byrjuðum á Skrúðsgrunni og fengum þar ýsu. Síðan var haldið á Litlagrunn og þar fékkst stór og góður þorskur. Hann var að spá brælu nánast allan tímann en við urðum lítið varir við hana. Mér finnst haustið vera búið að vera afar gott hér fyrir austan bæði veðurfarslega og varðandi fiskirí. Það hefur sérstaklega fengist góður fiskur norður frá eða á Héraðsflóanum og á Glettingi,” segir Þórhallur.
Gullver mun halda á ný til veiða í dag.