Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar í Hafnarfirði í gærmorgun. Aflinn var um 120 tonn og var hann blandaður; ufsi, þorskur, ýsa og karfi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að um sé að ræða góða blöndu.
„Við vorum mest á Eldeyjarbankanum en þangað sóttum við ufsann. Þorskurinn var sóttur í Jökuldýpið og ýsan á Belgableyðuna sunnan við Eldeyjarbankann. Við enduðum síðan í karfa á Melsekk og þar fengum við rúmlega 20 tonn í tveimur stuttum holum þannig að við vorum ekki að veiðum þar nema í um það bil þrjár klukkustundir. Það var dagamunur á veiðinni, stundum var rag og svo skot eða gott á milli. Það virðist hins vegar vera nóg af karfanum. Gert er ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný á laugardagskvöld,“ sagði Þórhallur í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.