Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 72 tonnum í Hafnarfirði í gærmorgun. Aflinn var mest karfi og þorskur. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er rætt við Þórhall Jónsson skipstjóra í gærkvöldi en þá hafði skipið látið úr höfn og var á leið á miðin.
Þórhallur var fyrst spurður hvar veitt hefði verið.
„Við byrjuðum á að taka karfa út af Melsekk en þangað var eins og hálfs sólarhrings sigling frá Seyðisfirði. Það gekk vel að ná karfanum þarna. Við færðum okkur síðan á Eldeyjarbankann en borist höfðu góðar veiðifréttir þaðan. Þegar þangað var komið hafði veiðin hins vegar dottið niður. Þá færðum við okkur norður undir Látragrunn en þaðan höfðu einnig borist góðar fréttir. Þetta var sama sagan því veiðin var dottin niður þar líka þegar við komum. Að þessu loknu héldum við á ný á Eldeyjarbankann og vorum þar það sem eftir var túrsins. Undir lokin var veðrið ákaflega leiðinlegt. Það voru yfir 25 metrar síðasta einn og hálfan sólarhringinn og við lentum í bölvuðu brasi, festum illa og slitum grandara. Það gengur ekki alltaf allt að óskum í þessum bransa en það gengur bara betur næst,” segir Þórhallur.