Ísfisktogarinn Gullver NS var í Færeyjum í um mánaðartíma þar sem ýmsum viðhaldsverkefnum í skipinu var sinnt. Skipið lagði af stað til Seyðisfjarðar á laugardagskvöld en þangað var rúmlega sólarhrings sigling og kom skipið til hafnar nú í nótt.
„Það voru ýmis verkefni á dagskrá,“ segir Þórhallur Jónsson skipstjóri í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Það þurfti að taka upp aðalvél og ljósavél og þá hefur töluverð járnavinna farið fram. Eins ber að nefna að eldhúsið í skipinu var algerlega endurnýjað þannig að kokkurinn er búinn að fá fyrirmyndar aðstöðu. Við fórum sex að sækja skipið og auðvitað hefur verið gott að vera hér á meðal frænda okkar. Strax og komið verður til Seyðisfjarðar verður skipið karað og veiðarfæri tekin um borð. Síðan verður haldið beint til veiða,“ er haft eftir Þórhalli á svn.is.