Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 115 tonnum, mest þorski og ýsu á Seyðisfirði á þriðjudaginn.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Þórhall Jónsson skipstjóra. Segir hann túrinn hafi byrjað illa en endað vel.

„Við reyndum ýmislegt í þessari veiðiferð með misjöfnum árangri. Við byrjuðum á að fara suður á Stokksnesgrunn að leita að ufsa og karfa en þar var hreint út sagt ekkert að hafa. Síðan var farið á Lónsbugt og Lónsdýpi og einnig á Papagrunn og það var nánast sama sagan,“ er haft eftir Þórhalli. Þetta hafi leitt til þess að fyrsti eini og hálfi sólarhringurinn hafi skilaði afskaplega litlu.

Ýmislegt reynt

„Þá tókum við hol á Örvæntingarhorni og þar fékkst þorskur en hann var ekki góður og því var ekki lengur verið þar. Að þessu loknu var haldið á Skrúðsgrunn og þar fengum við ýsu. Leiðin lá síðan á Tangaflakið þar sem stutt var stoppað áður en farið var í Héraðsflóann og á Glettinganesflakið. Þar var síðan restað í ýsu og þorski. Það var kaldafýla allan túrinn en engin ástæða til að kvarta mikið yfir veðrinu. Eins og sést á framansögðu var ýmislegt reynt í þessum túr og þegar upp var staðið var hann bara ásættanlegur og við komum með fullt skip að landi,” segir Þórhallur á vef Síldarvinnslunnar.