Heildarvísitala gullkarfa í haustmælingu Hafrannsóknastofnunar mældist sú hæsta frá árinu 1996. Hefur vísitalan aukist jafnt og þétt frá árinu 2000 og eru vísitölur síðustu þriggja ára þær hæstu frá árinu 1996. Þetta er svipuð þróun og í stofnmælingu botnfiska í mars.
Heildarvísitala djúpkarfa jókst árið 2014 samanborið við árið 2013, en hefur farið þó farið hægt lækkandi frá árinu 2000.
Vísitala veiðistofns grálúðu (55 cm og stærri) hefur hækkað frá árunum 2004-2007 þegar hún var í lágmarki en er þó talsvert lægri en var á árunum 1997-2002. Árið 2014 var grálúðu mest að finna djúpt út af Norður- og Austurlandi líkt og undanfarin ár, en hlutdeild á Vestursvæðinu árið 2014 var fremur lág miðað við fyrri ár
Stofnvísitölur steinbíts og hlýra voru lágar líkt og árin 2010-2013. Stofnvísitala ufsa hækkaði frá árinu 2009 til ársins 2012 og hefur haldist svipuð síðan þá. Vísitala skötusels jókst eftir að hafa farið ört lækkandi frá árinu 2010 og mældist nú svipuð og árið 2012.
Stofnvísitala löngu hefur haldist há frá árinu 2007, rúmlega tvöfalt hærri en hún var á árunum 1996-2006. Stofnvísitala keilu hefur einnig haldist há frá árinu 2006 og var mælingin í ár svipuð og verið hefur frá 2009.
Stofnvísitala gulllax jókst um rúmlega helming samanborið við árin 2010-2013 og mældist sú hæsta frá árinu 2000. Þessi mikla aukning frá árinu 2013 helgast af miklum afla á fáum stöðvum og öryggismörk mælinganna eru mjög víð.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.