Stolt Sea Farm á Reykjanesi ætlar að hefja tilraunaeldi á allt að 30 tonnum af gullinrafa, sem sagður er verðmætur fiskur og seldur á sömu mörkuðum og senegalflúran sem fyrirtækið framleiðir áfram.

Matvælastofnun hefur nú samþykkt breytingu á rekstrarleyfi Stolt Sea Farm, sem nú hyggst hefja tilraunaeldi á gullinrafa en heldur áfram eldi á senegalflúru. Styrjueldinu verður hætt.

Fyrirtækið segir gullinrafa vera verðmætan fisk sem seldur sé á sömu mörkuðum og flúran. Aukið framboð af heitu vatni er sagt hafa skapað tækifæri til að hefja þetta eldi.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er vitnað í greinargerð frá Stolt Sea Farm Iceland, en þar kemur fram að á þessu ári sé fyrirhugað að flytja inn 7.000 til 10.000 seiði. Þau verði alin innan dyra í tönkum í 4-5 mánuði eða þar til þau hafi náð 350g stærð og þá verði fiskurinn fluttur út í ker.

Umfangslítil viðbót

Skipulagsstofnun segir um að ræða „umfangslítið tilraunaeldi til viðbótar við það eldi sem þegar fer fram í eldisstöð Stolt Sea Farm. Allir innviðir eru þegar til staðar og einu framkvæmdirnar koma til með að felast í að eldiskerum verður komið fyrir á lóð fyrirtækisins á svæði sem þegar hefur verið raskað. Eldinu mun fylgja minniháttar aukning á magni lífrænna næringarefna sem berast til sjávar.“

Hvorki Hafrannsóknastofnun né Fiskistofa telja tegundina líklega til þess að hafa neikvæð áhrif á náttúrulega fiskistofna hér, meðal annars vegna þess að gullinrafi sé hlýsjávartegund sem ólíklega myndi þrífast í sjó við Ísland.

Ítarlegri upplýsinga krafist

Umhverfisstofnun telur umfjöllun um losun næringarefna frá eldinu þó ekki nógu ítarlega og mun krefjast ítarlegri upplýsinga þar um fyrir endurskoðun á starfsleyfi.

Fram kemur að til tilraunaeldisins verði „nýttir um 100 l/s af affalsvatni og jarðsjó sem sé lítill hluti af núverandi vatnsnotkun sem er um 800-1000 l/s. Ekki er þörf á að bora auka holur né gera breytingar á núverandi vatnsveitukerfi HS Orku. Útstreymi frá kerjum mun sameinast fráveitu frá núverandi framleiðslu. Fóðurnotkun verður um það bil 35 -45 tonn á ári og því minniháttar aukning við þau 450-550 tonn af fóðri sem notað er í eldinu í dag.“

Stolt Sea Farm hefur verið með tilraunaeldi á styrju allt frá árinu 2014, en tilgangurinn var að kanna möguleika á því að koma á fót kavíarframleiðslu hér á landi. Styrjueldi er þolinmæðisverk því það tekur allt að tíu árum að ala seiði til kynþroska. Í síðustu ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma segir að styrjan á Reykjanesi hafi dafnað vel og búast megi við fyrstu hrognum eftir 1-3 ár, en óvíst var með framhaldið.

Fyrirtækið hefur jafnframt alið senegalflúru frá árinu 2012 og hefur leyfi fyrir um 2000 tonna ársframleiðslu.