Gullberg VE stoppaði stutt við í Eyjum eftir viðhaldsstopp í Slippnum á Akureyri því leiðin lá beint á makrílmiðin.

Frá þessu segir á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar þar sem rætt er við Halldór Alfreðsson, 27 ára gamlan afleysingaskipstjóra. Halldór er að leysa Jón Atla Gunnarsson skipstjóra af.

Treg veiði en stór og góður makríll

„Við erum komnir með í skipið núna einhver 230 tonn,“ er haft eftir Halldóri í gær. Hann kveður veiðina hafa verið trega. Huginn VE sé einnig á miðunum og sé veitt í Gullbergið. Skipin væru austast í íslensku lögsögunni og ekki ljóst hvenær þau kæmu í land. Makrílinn sem væri verið að veiða væri stór og góður. Fínasta veður hafi verið er þeir komu á miðin en kominn kaldi úr suðvestri sem hjálpi ekki við veiðarnar.

Andveltitankur mun reynast vel í haust

„Við erum mjög ánægðir með breytingarnar,“ svarar Halldór spurður um breytingarnar sem voru gerðar á Gullbergi á Akureyri.

„Vinnuplássið hefur verið bætt og búið að loka honum bakborðsmegin. Þá var settur í skipið andveltitankur, sem á klárlega eftir að reynast vel á komandi haustmánuðum,“ er haft eftir Halldóri sem einnig kveðst ánægður með að Gullbergið hafi nú verið málað í litum Vinnslustöðvarinnar. „Það er komið í Vinnslustöðvar-búninginn og sæmir sér vel.“